SecureIT logo
Main post image

Netbrynja – Fræðsla í netöryggi fyrir börn og unglinga: Hvar stöndum við og hvert stefnum við?



Í síðustu viku fengum við hjá SecureIT tækifæri til að kynna Netbrynju á viðburði á vegum Rannís og Eyvör NCC-IS. Þar deildum við fyrstu útgáfu verkefnisins og fengum dýrmæt viðbrögð og umræðu um mikilvægi aukinnar fræðslu í netöryggi barna og unglinga. Hér deilum við uppfærslu á stöðu verkefnisins, hvað við höfum lært og hvert við stefnum næst.


Hvað er Netbrynja?

Netbrynja er nýr stafrænn fræðsluvettvangur sem hjálpar börnum á aldrinum 8–15 ára að þekkja og forðast netógnir og skilja afleiðingar t.d. Neteineltis. Lausnin byggir á gagnvirku efni og spjallmenni sem gerir börnum og unglingum kleift að læra á sínum hraða og á þeim miðlum og tækjum sem þau þekkja og nota daglega.

Við hönnun Netbrynju höfum við jafnframt haft að leiðarljósi að styðja við kennara og foreldra í fræðslu og samtali um örugga netnotkun og stafrænt sjálfsöryggi barna.


Hvað höfum við gert hingað til?

  • Við höfum smíðað frumgerð með spjallmenni og myndbandsefni.
  • Fengið virka þátttöku kennara og sálfræðinga við þróun efnis.
  • Skipt yfir í notkun gervigreindartóla til að framleiða myndbandsefni hraðar og á hagkvæmari hátt.
  • Tekið upp friðhelgi einkalífs nálgun (e. privacy-first) nálgun þar sem öll gagnasöfnun er lágmörkuð og ópersónugerð og engin utanaðkomandi þjónusta er notuð.

Hvað höfum við lært?

  • Beint framlag frá fagfólki, kennurum og sálfræðingum er ómetanlegt við að móta efni sem virkar fyrir börn og unglinga.
  • Að byggja tæknilega skalanlega lausn er áskorun en að búa til efni sem börn vilja í raun nota er önnur, jafnvel stærri!
  • Mikilvægt er að hönnun og upplifun taki mið af aldri, forsendum og hegðun barna og unglinga í stafrænni notkun og veröld.

Hvert stefnum við næst?

  • Prófanir á Netbrynju í grunnskólum hefjast vonandi haustið 2025.
  • Við vinnum að því að bæta við efni um neteinelti, stafræna samskiptahæfni og sjálfsöryggi á netinu.
  • Við sækjum eftir frekara samstarfi við menntasamfélagið, fræðsluaðila og stofnanir sem sinna velferð barna og unglinga í stafrænum heimi.

Takk fyrir traustið

Við erum afar þakklát fyrir styrkinn frá Eyvör NCC-IS netöryggissjóðnum í gegnum Rannís, sem hluta af Digital Europe áætlun Evrópusambandsins. Þessi stuðningur gerir okkur kleift að þróa lausnir sem efla netöryggismenningu frá unga aldri og styðja næstu kynslóð í að verða öruggari og meðvitaðri notendur stafrænnar tækni.