
SecureIT hefur samstarf við nýtt verkefni í öryggisvitund og gervigreind
SecureIT er í samstarfi við Háskólann á Akureyri og evrópska háskóla um að fræða eldri borgara um gervigreind og netöryggi.
Eftir netárásina á Háskólann á Akureyri í byrjun árs 2023 hófst mjög gefandi og skemmtilegt samstarf við SecureIT þar sem áhersla var lögð á enduruppbyggingu og afgerandi viðbrögð. Þetta samstarf leiddi til þess að við hófum samstarfsverkefni með Símenntun Háskólans á Akureyri sem felur í sér að efla öryggisvitund og fræðslu.
Nýja verkefnið sem ber heitið Seniors Artificial Intelligence Learning – Well Educated and Risk Secure miðar að því að kenna fólki á þriðja æviskeiði hvernig nota skal gervigreind og hvernig hægt er að forðast hættur á netinu. Verkefnið hlaut veglegan styrk frá Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins að upphæð 400.000 evra til þriggja ára.
SecureIT, ásamt Háskólanum á Akureyri, Símenntun Háskólans á Akureyri og háskólum frá Tékklandi, Grikklandi og Póllandi munu vinna saman að þessu verkefni. Verkefnið byggir á sérfræðiþekkingu okkar í netöryggi og öryggisvitundarvakningu sem við höfum þróað undanfarin ár.
Þetta samstarfsverkefni er mikilvægt skref í átt að því að tryggja að eldra fólk sé vel upplýst og varið gegn hættum á netinu ásamt því að nýta kosti gervigreindar til að bæta lífsgæði þeirra. SecureIT er stolt af því að taka þátt í þessu verkefni og mun áfram vinna að því að efla öryggisvitund í samfélaginu.